Name:
Location: Iceland

Saturday, January 28, 2006

Speki...

En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?
Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.
Undirdjúpið segir: Í mér er hún ekki! og hafið segir: Ekki er hún hjá mér!
Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.
Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum.
Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli. Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur.
Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.
Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima?
Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.
Undirdjúpin og dauðinn segja: Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið.
Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.
Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er.
Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins,
þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum,
þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.
Og við manninn sagði hann:
Sjá, að óttast Drottin það er speki, og að forðast illt það er viska.
Job 28, 12 - 28


Hjá Guði er speki og máttur, hans eru ráð og hyggindi.
Job 12,13

Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
Sálmur 110, 10

Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.
Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?
Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.
Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.
Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
1. Kor. 1, 18 - 25